Fyrrum einræðisherra í 20 ára fangelsi

Reynaldo Bignone.
Reynaldo Bignone. AFP

Reynaldo Bignone, fyrrverandi oddviti herforingjastjórnarinnar í Argentínu, hefur verið dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir glæpi sem hann framdi á áttunda áratug síðustu aldar.

Bignone stýrði herforingjastjórninni sem ríkti í Argentínu frá 1976 til 1983. Það var dómari í Buenos Aires, höfuðborg landsins, sem kvað upp dóminn í gær, en réttarhöld höfðu staðið yfir í um þrjú ár.

Bignone og samverkamenn hans frömdu glæpina í Campe de Mayo herstöðinni. Fjölmörgum vinstrimönnum var rænt og þeir myrtir, ekki aðeins í Argentínu, heldur jafnframt Úrúgvæ, Brasilíu, Síle, Paragvæ og Bólivíu.

Alls hlutu fimmtán manns fangelsisdóm. Frá því að réttarhöldin hófust árið 2013 létu fimm sakborningar lífið, þar á meðal einræðisherrann Jorge Rafael Videla. Enn á eftir að dæma í málum fleiri fyrrum liðsmanna herforingjastjórnarinnar.

Mannréttindasamtök fögnuðu dómnum. Hann gæfi sterkt fordæmi og gæti vonandi tryggt að svona gróf mannréttindabrot yrðu aldrei aftur framin í álfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert