Lítil flugvél hrapaði í Hudson-ána

Frá blaðamannafundi lögreglu og slökkviliðs.
Frá blaðamannafundi lögreglu og slökkviliðs. AFP

Gömul flugvél úr seinni heimsstyrjöldinni brotlenti í Hudson-ánni milli New York og New Jersey snemma í morgun.

Vélin, sem er eins sætis P-47 Thunderbolt, hrapaði um 3,2 kílómetra frá George Washington-brúnni.

Samkvæmt BBC hafa kafarar náð líki, sem talið er vera af flugmanninum, úr vélinni. Orsakir slyssins hafa ekki verið staðfestar en mögulegt er talið að vélarbilun hafi átt sér stað. Vélin var ein þriggja sem tók á loft frá flugvelli í Farmingdale, austur af New York. Verið var að taka upp kynningarmyndband í tilefni af 75 ára afmæli The American Airpower safnsins.

Hinar vélarnar tvær – P-40 og önnur með ljósmyndara um borð – lentu heilu og höldnu á sama flugvelli og lagt var upp frá.

Lögregla hefur staðfest að líkið úr vélinni sé af 56 ára karlmanni að nafni William Gordon frá Key West í Flórída.

Háskólaneminn Siqi Li sá vélina brotlenda í ánni.

„Hún fór í einskonar u-beygju og svo streymdi reykur frá henni,“ sagði hann. „Hún hallaði niður að vatninu. Ég hélt að þeir væru að gera einhverskonar brellu.“

Árið 2009 nauðlenti flugmaður farþegavélar með 155 farþega og áhafnarmeðlimi á Hudson ánni. Allir um borð björguðust og hefur atvikið verið kallað „kraftaverkið á Hudson ánni“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert