Mossack Fonseca dregur saman seglin

Panamaskjölunum var lekið frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölunum var lekið frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca. AFP

Panamska lögmannsstofan Mossack Fonseca hefur ákveðið að loka skrifstofum sínum á bresku eyjunum Jersey, Mön og Gíbraltar. Þjónusta við viðskiptavini á þessum eyjum verður þó áfram hin sama.

Lögmannsstofan tilkynnti um áformin á Twitter-síðu sinni í gær, en þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin með miklum trega. Lögmannsstofan hafi haft aðsetur á eyjunum í yfir tuttugu ár.

Lögmannsstofan varð miðpunktur stærsta gagnaleka sögunnar í apríl síðastliðnum eftir að 11,5 milljónum skjala lögmannsstofunnar, svonefndum Panamaskjölum, var lekið á netið.

Þýski fjölmiðill­inn Süddeutsche Zeit­ung deildi Panamaskjöl­un­um með alþjóðasam­tök­um rannsókn­ar­blaðamanna, In­ternati­onal Consorti­um of In­vestigati­ve Journa­lists, sem veitti yfir hundrað fjöl­miðlafyr­ir­tækj­um aðgang að þeim.

Lögmannsstofan, sem sérhæfir sig í rekstri aflandsfélaga, hefur ítrekað neitað því að hafa gert nokkuð rangt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert