Norður-Kórea sögð á bak við netárás

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Virt öryggisfyrirtæki rannsakar nú hvort stjórnvöld í Norður-Kóreu tengjast gagnaárásum sem gerðar hafa verið á nokkra banka á undanförnum mánuðum.

Forsvarsmenn fyrirtækisins, Symantec, sögðust í yfirlýsingu hafa undir höndum vísbendingu um að sami hópur tölvuþrjóta hefði gert tilraun til að ræna banka í Filippseyjum og Víetnam og jafnframt seðlabanka Bangladess.

Þá væri forritið sem tölvuþrjótarnir notuðust við svipað því sem notað var í árásinni á tölvukerfi kvikmyndadeildar Sony í nóvember 2014. Bandarísk stjórnvöld segja að Norður-Kóreumenn hafi verið á bak við árásina.

Eins og kunnugt er var um áttatíu og einni milljón Bandaríkjadala stolið frá seðlabankanum í Bangladess í febrúar á þessu ári. Tengsl virðast vera milli ránsins og tölvuárásarinnar á Sony, að mati fyrirtækisins BAE Systems, sem starfar meðal annars á sviði tölvuöryggis, eftir því sem fram kemur í frétt Reuters.

Svo virðist sem tölvuþrjótunum hafi tekist að brjóta sér leið í gegnum varnir bankanna, komist þannig yfir notendaupplýsingar og gefið út tilskipanir um að millifæra ætti stórfé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert