„Særir ekki legið heldur sálina“

Mótmælendur í Ríó.
Mótmælendur í Ríó. AFP

Tímabundinn forseti Brasilíu, Michel Temer, hefur kallað öryggisráðherra allra ríkja landsins á neyðarfund í kjölfar sterkra viðbragða við hópnauðgun á unglingsstúlku í Ríó de Janeiro.

Temer hefur lofað almenningi að koma á fót sérstarki deild innan alríkislögreglunnar til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi.

Frétt mbl.is: Myndband af hópnauðgun skekur Brasilíu

Stúlkan, sem er 16 ára, telur að sér hafi verið byrluð ólyfjan eftir að hún fór á heimili kærasta síns síðastliðinn laugardag en hún vaknaði í öðru húsi, umkringd 30 mönnum. Hundruð mótmælenda komu saman á föstudag til að krefjast aðgerða gegn kynferðisofbeldi. Myndskeið af árásinni var birt á samfélagsmiðlum og leitar lögregla nú dyrum og dyngjum að mönnunum. Handtökuskipanir hafa verið gefnar út vegna glæpsins, þar á meðal ein á hendur kærasta hennar.

Raphael Assis Duarte Belo, 41 árs, er einn þeirra sem …
Raphael Assis Duarte Belo, 41 árs, er einn þeirra sem lýst hefur verið eftir í tengslum við árásina. AFP

„Ég fordæmi af miklum þunga nauðguninni gegn táningnum í Ríó de Janeiro,“ sagði Temer í yfirlýsingu. „Það er fáránlegt að þurfa að lifa við svo fólskulega glæpi á 21. öldinni.“

Lögreglustjórinn Fernando Veloso sagði á blaðamannafundi að verið væri að fara yfir sönnunargögnin.

„Ef þessar myndir hefðu ekki verið birtar værum við kannski ekki hér,“ sagði hann og bætti við að margar nauðganir væru aldrei tilkynntar til lögreglu.

Fjölskyldan horfði og grét

Nauðgunin er sögð hafa átt sér stað í fátæku samfélagi í vestanverðri Ríó síðustu helgi. Myndskeiðinu, sem er 40 sekúndur, var dreift víða og fylgdi því alda skilaboða sem innihéldu kvenhatur áður en viðkomandi notendum var eytt.

Í skilaboðum á Facebook sagðist fórnarlambið þakklátt fyrir stuðning almennings.

„Ég hélt í alvöru að ég yrði dæmd á slæman hátt,“ skrifaði stúlkan. „Við gætum öll gengið í gegnum þetta einn daginn. Það særir ekki legið heldur sálina af því að illgjörnu fólki er er ekki refsað!! Takk fyrir stuðninginn.“

Mótmælendur létu í sér heyra.
Mótmælendur létu í sér heyra. AFP

Amma stúlkunnar sagði brasilískum fjölmiðlum að fjölskyldan hefði horft á myndskeiðið og grátið.

„Ég sé eftir að hafa horft á það. Þegar við heyrðum söguna trúðum við ekki því sem var að gerast. Þetta er mikil hörmung. Þetta er niðurdrepandi ástand.“

Í kjölfar árásarinnar var komið á netherferð gegn nauðgunarmenningu í Brasilíu. Sérfræðingar segja að margar nauðganir séu aldrei tilkynntar vegna ótta fórnarlamba við hefnd, skömm og að þeim sé kennt um ofbeldið.

Hundruð mótmælenda komu saman í Ríó de Janeiro á föstudag og veifuðu skiltum með silaboðum á við „Nei þýðir nei“ og „Macho-ismi drepur“. Í Sao Paulo reistu mótmælendur veggmynd með skilaboðum á við „Líkami minn er ekki þinn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert