Töldu gleraugu á gólfinu listaverk

Skjáskot af Twitter

Gleraugu á gólfi Nútímalistasafnsins í San Francisco í Bandaríkjunum vöktu athygli gesta safnsins fyrr í vikunni og töldu þeir að um nútímalistaverk væri að ræða. Safnaðist fólk í kringum gleraugun til þess að skoða þau og taka af þeim myndir.

Ekki var þó um listaverk að ræða heldur hafði unglingsdrengur skilið gleraugun eftir til þess að kanna hver viðbrögðin yrðu. Hvort fólk myndi telja að um væri að ræða hluta af listaverkum safnsins. Haft er eftir hinum 17 ára gamla TJ Khayatan í frétt breska dagblaðsins Independent að honum hafi þótt margt á safninu áhugavert en annað hefði alls ekki vakið áhuga hjá honum.

„Við sáum til að mynda uppstoppað dýr á gráu teppi og veltum fyrir okkur hvort þetta væri virkilega áhugavert að mati gesta safnsins,“ segir hann. Til að kanna hvort fólk væri reiðubúið að virða fyrir sér hvað sem er á listasafni og reyna að meta það listrænt kom hann gleraugunum fyrir á gólfinu og fylgdist síðan með álengdar.

Ekki leið á löngu þar til fólk fór að safnast í kringum gleraugun og nokkrir tóku myndir. Khayatan greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Twitter og birti þar myndir af fólki skoða hið meinta listaverk og hefur það vakið mikla athygli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert