Yfir 40 manns slösuðust í eldingum

Frá almenningsgarðinum í París þar sem mikið þrumuveður gekk yfir …
Frá almenningsgarðinum í París þar sem mikið þrumuveður gekk yfir í dag. AFP

35 manns slösuðust þegar eldingu laust niður á knattspyrnuvelli í Hoppstädten í suðvesturhluta Þýskalands í dag. Þar af eru þrír taldir alvarlega slasaðir. Leikur stóð yfir á vellinum þegar eldingin reið yfir.

Er dómari leiksins á meðal alvarlega slasaðra.

Meðal hinna slösuðu voru 29 börn en flest þeirra voru flutt á sjúkrahús. Ekkert hafði rignt fyrr um daginn og kom eldingin því öllum að óvörum.

Þá slösuðust ellefu, þar af tíu börn, þegar eldingu laust niður í almenningsgarði í París, höfuðborg Frakklands. Er talið að þrír séu lífshættulega slasaðir, að sögn breska ríkisútvarpsins. Fólkið leitaði skjóls undir tré þegar mikið óveður skall á en ekki vildi betur til en að eldingin lenti í trénu, með fyrrgreindum afleiðingum.

Mikið þrumuveður er víða í Evrópu í dag og þurfti meðal annars að fresta leik tennisstjörnunnar Serenu Williams við Kristinu Mladenovic á franska meistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert