Afhendi skjöl um Trump-háskólann

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Dómari í Bandaríkjunum hefur fyrirskipað fyrirtæki í eigu Donalds Trumps, væntanlegs forsetaframbjóðanda repúblikana, að afhenda skjöl er varða starfsemi Trump-háskólans.

Dómsmál hefur verið höfðað á hendur skólanum en fyrrum nemendur hans telja sig hafa verið blekkta og jafnvel féflétta. 

Trump-há­skól­inn var starf­rækt­ur á ár­un­um 2005 til 2010. Stjórnendur skólans eru sakaðir um að hafa blekkt um fimm þúsund manns. Allt að tíu þúsund námsmenn skráðu sig í nám í fasteignamiðlun í skólanum, en boðið var upp á allt frá ókeyp­is fyr­ir­s­lestr­um og yfir í sérhæft nám þar sem skóla­gjöld numu allt að 35 þúsundum doll­ar­a og var hagnaður skól­ans um 40 millj­ón­ir doll­ara.

Um er að ræða skjöl sem sýna hvernig verkefnið gekk fyrir sig, með hvaða hætti skólinn var rekinn og eins hvernig hann var markaðssettur.

Háskólinn er miðdepill tveggja dómsmála í San Diego og eins í New York, að því er segir í frétt Washington Post um málið.

Lögmenn Trumps telja að upplýsingarnar, sem finna má í skjölunum, eigi ekki að vera opinberar. Þar megi finna viðkvæm viðskiptaleyndarmál. En dómarinn, Gonzalo Curiel, var ósammála því og sagði almannahagsmuni krefjast þess að skjölin yrðu gerð opinber. Ástæðan væri meðal annars sú að Trump væri nú forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.

Trump hefur varið skólann og þá gagnrýndi hann dómarann harkalega á kosningafundi í San Diego á föstudaginn. Hann sagði dómarann vera „hatursmann“ sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert