Flóttafólki bjargað við England

Flóttamenn í Calais í Frakklandi.
Flóttamenn í Calais í Frakklandi. AFP

Tuttugu flóttamönnum, þar á meðal átján Albönum, var bjargað úr báti sem farinn var að leka undan ströndum Kent í Englandi í nótt.

Talið er að fólkið hafi hringt í ættingja sína í flóttamannabúðunum í Calais til að láta þá vita af vandræðum sínum. Frönskum stjórnvöldum var í kjölfarið gert viðvart og höfðu þau samband við bresku strandgæsluna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Lögreglumenn ræða nú við fólkið.

Strandgæslan segist hafa fengið tilkynningu um bátinn rétt fyrir miðnætti í nótt, rétt við sveitaþorpið Dymchurch.

Þyrla og tveir björgunarbátar voru send á vettvang en fólkið fannst um tveimur klukkutímum síðar, heilt á húfi.

Í bænum Cala­is eru stærstu flótta­manna­búðir Frakk­lands. Þar haf­ast þúsundir flótta­manna við í tjald­búðum og freista þess að kom­ast yfir Erma­rsundið til Bret­lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert