Hætta að fljúga til Venesúela

AFP

Þýska flugfélagið Lufthansa hefur tilkynnt að það muni hætta að fljúga til Venesúela frá og með 18. júní næstkomandi vegna efnahagsástandsins í landinu.

Í tilkynningu sagði félagið að ströng gjaldeyrishöft, sem eru við lýði í Venesúela, gerðu það að verkum að flugfélög gætu ekki skipt hagnaði sínum í Bandaríkjadollar og flutt hann úr landi.

Efnahagur Venesúela er í molum og má segja að sósíalísk stefna stjórnvalda þar í landi hafi beðið skipbrot. Þá hefur lækkandi verð á olíu, sem er helsti tekjustraumur landsins, jafnframt haft sitt að segja.

Verðbólga mælist afar há og er mikill skortur á helstu nauðsynjavörum.

Lufthansa hefur flogið frá Frankfurt til Caracas, höfuðborgar Venesúela. Flugfélagið bendir hins vegar á að eftirspurn eftir ferðum til landsins hafi dregist verulega saman í fyrra og á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Félagið sagðist þó vonast til þess að geta haldið áfram að fljúga til Venesúela í náinni framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert