Hnífamaður skotinn í Stokkhólmi

Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi.

Maður var skotinn á Sergeltorgi í Stokkhólmi í gær eftir að hann réðist að lögregluþjónum með hníf í hendi.

„Tveir lögregluþjónar stóðu á torginu og voru að ræða við fólk þegar maður með hníf réðist á þá,“ hefur The Local eftir Carinu Skagerlind, talsmanni lögreglunnar í Stokkhólmi.

„Einn lögregluþjónanna dró upp vopn sitt og svaraði með byssuskotum. Hnífamaðurinn var skotinn mörgum sinnum í magann.“

Maðurinn, sem er alvarlega særður, var fluttur á spítala í lögreglubíl.

„Hann henti hníf í lögregluþjóna og var með annan í höndunum. Þá skutu þeir hann. Hann féll niður og gat ekki hreyft sig. Þá fóru þeir að honum með vopn sín í höndunum og úðuðu piparúða í augu hans áður en þeir fóru með hann að lögreglubílnum,“ sagði vitni við sænska miðilinn Aftonbladet.

Tæknimenn á vegum lögreglu eyddu kvöldinu í að kemba torgið í leit að vísbendingum. Litið er á atvikið sem tilraun til morðs eða manndráps. Ekki hefur verið gefið upp hver árásarmaðurinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert