„Það voru lík alls staðar“

Fólk sem lifði af ferðalag yfir Miðjarðarhafið í vikunni.
Fólk sem lifði af ferðalag yfir Miðjarðarhafið í vikunni. AFP

Fjörutíu börn voru á meðal þeirra um 700 manns sem óttast er að hafi drukknað í vikunni við að reyna að komast á illa búnum bátum yfir Miðjarðarhafið til Evrópuríkja. Þar á meðal mörg ungbörn. Þeir sem lifðu af greindu frá örlögum samferðafólks síns við komuna til Ítalíu.

„Við munum aldrei vita nákvæman fjölda þeirra, við munum aldrei vita hverjir þeir eru,“ er haft eftir Carlottu Sami hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í frétt AFP. Giovanna Di Benedetto hjá samtökunum Save the Children segir útilokað að vita hversu margir hafi lagt af stað en þeir sem lifðu af segi að um 1.100 manns hafi lagt af stað frá Líbíu á miðvikudaginn á tveimur fiskibátum og gúmmíbát.

Frétt mbl.is: Talið að allt að 700 hafi farist

„Við reyndum allt til þess að stöðva vatnið og koma því út úr bátnum,“ er haft eftir stúlku frá Nígeríu. „Við notuðum hendurnar, plastglös. Í fjóra klukkutíma börðumst við gegn vatninu en það var tilgangslaust. Báturinn fór að fyllast og þeir sem voru niðri í honum áttu engan möguleika. Konur, karlar, börn, mörg börn, voru föst og drukknuðu.“

„Ég sá móður mína og ellefu ára systur deyja,“ er haft eftir þrettán ára stúlku frá Erítreu. „Það voru lík alls staðar.“ Fram kemur í fréttinni að fleiri reyni nú en áður að komast yfir Miðjarðarhafið þar sem veður hafi farið batnandi vegna sumarkomunnar.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert