Aðalsamningamaður í Sýrlandi hættur

Mohammed Alloush er hættur störfum.
Mohammed Alloush er hættur störfum. AFP

Aðalsamningamaður stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi í friðarviðræðum undir stjórn Sameinuðu þjóðanna hefur sagt af sér. Hann segir að friðarviðræðurnar hafi ekki borið árangur.

„Þrjár lotur friðarviðræðna báru engan árangur vegna þrjósku stjórnvalda og áframhaldandi sprengjuregns þeirra og árása á sýrlenskan almenning,“ sagði Mohammed Alloush, liðsmaður uppreisnarhreyfingarinnar Jaish al-Islam (Her íslams), í yfirlýsingu á Twitter.

Hann fordæmdi alþjóðasamfélagið fyrir að ná ekki að bregðast við vandanum, sérstaklega hvað varðar mannúðaraðstoð. Þar átti hann við að aflétta umsátri um bæi, auðvelda aðgang að hjálpargögnum, leysa fanga úr haldi og að fylgja vopnahléi eftir.

Ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og uppreisnarmenn sömdu um vopnahlé í febrúar en það hefur ekki gengið sem skyldi og hefur margoft verið brotið gegn samkomulaginu.    

„Hinar endalausu friðarviðræður hafa slæm áhrif á örlög Sýrlendinga,“ sagði Alloush.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert