„Ef þú syndir að nóttu verður þú étin“

Ástralskur þingmaður hefur hvatt fólk til að taka ekki reiði …
Ástralskur þingmaður hefur hvatt fólk til að taka ekki reiði sína út á krókódílunum og sakað fórnarlambið um fávisku. AFP

Óttast er að hin 46 ára Cindy Waldron sé látin, eftir að krókódíll greip hana í kjaftinn þar sem hún var á sundi í Daintree-þjóðgarðinum í norðurhluta Ástralíu. Þingmaður á svæðinu hefur biðlað til fólks um að láta „heimsku“ konunnar ekki bitna á skepnunum.

Waldron stóð í mittisdjúpu vatni þegar atvikið átti sér stað en að sögn viðbragðsaðila fann vinkona hennar hvernig eitthvað nuddaðist við þær. Skyndilega dró stór krókódíll Waldron niður í vatnið en tilraunir vinkonu hennar til að grípa í hana komu fyrir ekki.

Samkvæmt lögreglunni höfðu konurnar verið á göngu þegar þær ákváðu að fá sér dýfu í vatninu. Þær virðast ekki hafa verið meðvitaðar um hætturnar, þrátt fyrir viðvörunarskilti.

Fimm metra langur krókódíll hafði nýlega sést á svæðinu og þá er þekkt að stórir krókódílar ráðist þar á dýr og stundum menn.

Leit stendur yfir að Waldon en þingmaðurinn Warren Entsch er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Hann sagðist vonast til þess að atvikið yrði ekki til þess að kveikja hefndarþorsta gagnvart krókódílum á svæðinu.

„Þú getur ekki sett lög gegn mannlegri heimsku,“ sagði hann í dag. „Þetta er harmleikur en hann var ekki óumflýjanlegur. Það eru viðvörunarskilti út um allt þarna.“

Entsch sagði umrædda strönd nálægt vogi þar sem boðið væri upp á krókódílaskoðunarferðir.

„Eina leiðin til að komast þangað er með ferju, og það eru skilti út um allt þar sem fólk er varað við fjárans krókódílunum,“ sagði hann. „Ef þú ferð að synda klukkan tíu að kvöldi verður þú étinn.“

Guardian sagði frá.

Atvikið átti sér stað á Thornton-strönd í Queensland.
Atvikið átti sér stað á Thornton-strönd í Queensland. Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert