Missti eiginkonu sína á Everest

Robert Gropel í Kathmandu, eftir að hafa verið fluttur af …
Robert Gropel í Kathmandu, eftir að hafa verið fluttur af Everest í kjölfar andláts eiginkonu sinnar. AFP

Hin ástralska Maria Strydom lést í örmum eiginmanns síns á leiðinni niður af tindi Everest. Hún átti aðeins 15 mínútur ófarnar á toppinn þegar hún gat ekki meira og beið á meðan samferðarmenn hennar náðu markmiði sínu.

Frétt mbl.is: Tveir létu lífið á Everest

„Ég spurði: Er það í lagi þín vegna að ég haldi áfram, og hún sagði: Já, haltu áfram, ég bíð þín hérna,“ segir Robert Gropel, eigimaður Strydom, sem tjáði sig um harmleikinn við Seven Network. Hann komst á leiðarenda en tilfinningin var innantóm. „Þegar ég komst á tind Everest var það ekkert sérstakt því hún var ekki hjá mér,“ segir hann. „Ég hljóp bara upp og niður og það var mér einskis virði.“

Strydom veiktist af háloftaveiki skömmu áður en komið var á toppinn og á leiðinni niður átti hún erfitt með að ganga og tjá sig. Henni voru færð lyf og gefið súrefni og hresstist nokkuð, en skyndilega hrundi hún niður. Hún komst ekki aftur til meðvitundar.

„Ég er eiginmaður hennar, það er mitt starf að vernda eiginkonu mína og koma henni heim og það er eðlilegt að ég kenni sjálfum mér um,“ segir Gropel. „Ég get enn ekki skoðað myndir af henni, hjarta mitt brestur.“

Strydom, háskólakennari, og Gropel, dýralæknir, voru bæði grænmetisætur og höfðu einsett sér að klífa hæsta tind hverrar heimsálfu. „Við viljum sanna að grænmetisætur geta hvað sem er og meira,“ sagði Strydom í mars sl.

Sjerpar fluttu lík Strydom niður af fjallinu í Búðir tvö á miðvikudag, þar sem þyrla sótti það og flutti til Kathmandu á föstudag.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert