Reyna að endurheimta Fallujah

Íraskir hermenn skammt frá þorpinu Hasan Sham, sem er um …
Íraskir hermenn skammt frá þorpinu Hasan Sham, sem er um 45 km austur af borginni Mosul. AFP

Íraskar hersveitir hófu innreið sína í borgina Fallujah snemma í morgun úr þremur mismunandi áttum. Markmiðið er að endurheimta borgina úr höndum Ríkis íslams.

„Íraskar hersveitir réðust inn í Fallujah og nutu þær verndar úr lofti frá alþjóðlegum bandamönnum, íraska lofthernum, með stuðningi frá skriðdrekum og stórkotaliði,“ sagði herforinginn General Abdelwahab al-Saadi.

Þangað til í morgun hafði verið lögð áhersla á að ná aftur þorpum og dreifbýlum svæðum í kringum Fallujah, sem er um 50 kílómetrum vestur af höfuðborginni Bagdad.

Fallujah er einungis önnur af tveimur stórum borgum í Írak sem eru enn undir yfirráðum Ríkis íslams. Hin borgin er Mosul.

Ellefu fórust í Bagdad

Að minsta kosti ellefu manns fórust og tugir særðust í þremur sprengingum í Bagdad í morgun.

Mannskæðasta árásin varð á markaði um níuleytið þar sem að minnsta kosti sjö manns fórust.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum á hendur sér en talið er að Ríki íslams hafi staðið á bak við þær.

Mannskæðasta sprengjuárásin í Bagdad á þessu ári varð fyrr í þessum mánuði þegar þrjár mismunandi árásir voru gerðar sama dag, þar á meðal í borginni Sadr. Hátt í eitt hundrað manns fórust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert