Sneru úr felum og frömdu rán

Myndirnar sem lögregluyfirvöld í Þýskalandi birtu af glæpamönnunum.
Myndirnar sem lögregluyfirvöld í Þýskalandi birtu af glæpamönnunum. Skjáskot/CNN

Lögreglan í Þýskalandi leitar þriggja glæpamanna sem grunaðir eru um að hafa ráðist á brynvarinn bíl með rifflum og sprengjuvörpu síðasta sumar og aðra svipaða árás 28. desember 2015. Ránstilraunirnar tvær báru þó ekki árangur og tókst ræningjunum ekki að hafa neitt fé á brott með sér en yfirvöld telja líklegt að hópurinn hafi notað símaspilli (e. Phone Jammer) við árásirnar til að koma í veg fyrir að fórnarlömbin gætu hringt eftir hjálp.

Ræningjarnir þrír eru þó ekki bara einhverjir venjulegir ræningjar því þarna eru á ferðinni fyrrverandi meðlimir Baader Meinhof-skæruliðasamtakanna, eða Rauðu herdeildanna eins og samtökin voru kölluð, sem hrelltu þýska borgara frá áttunda áratug síðustu aldar þar til þau leystust upp árið 1998.

Rán til að fjármagna líf sitt á flótta undan réttvísinni

Yfirvöld í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi hafa birt myndir sem teknar voru á þessu ári og eru taldar vera af þeim Ernst-Volker Staub, sem er 61 árs, og hinum 47 ára Burkhard Garweg. Auk þeirra leitar lögregla Danielu Klette sem er 57 ára en nýjasta myndin af henni er frá árinu 1988. Þremenningarnir hafa hlaupið undan réttvísinni síðan samtökin leystust upp í lok síðustu aldar og telja yfirvöld að þau hafi reynt að fremja ránin til að fjármagna líf sitt á flótta.

Hópurinn er sagður hafa framið sprengjuárás í Weiterstadt árið 1993 og ráðist með sprengjuvörpu á brynvarinn bíl í Duisburg árið 1999. Segir í yfirlýsingu frá lögreglu að Staub skorti umhirðu á tönnum en Garweg sé með stórt nef. Hafa 20 þúsund evrur, tæplega þrjár milljónir króna, verið settar til höfuðs þremenningunum en lögregla varar fólk við að nálgast þau þar sem þau séu hættuleg og kunni að vera vopnuð.

Frétt CNN um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert