Tugir kílóa af hassi á götuna í tálbeituaðgerð

Svo virðist sem aðgerðin hafi í upphafi verið til höfuðs …
Svo virðist sem aðgerðin hafi í upphafi verið til höfuðs einum manni, Metkel Betew, sem er landsþekktur í Noregi sem einn af ellefumenningunum sem frömdu NOKAS-ránið í miðbæ Stavanger 2004, stærsta bankarán sem framið hefur verið á Norðurlöndunum. Ljósmynd/Norska lögreglan

Fimmtíu kíló af hassi, sem danskir lögreglumenn smygluðu til Noregs í vafasamri tálbeituaðgerð, enduðu á götumarkaði í Ósló eftir að lögreglumennirnir ákváðu að koma ekki upp um sig strax heldur bæta við innflutningi á 20 kílóum af fíkniefninu ecstacy sem aldrei varð þó af.

Sérstakur saksóknari Noregs í lögreglumálum (Spesialenheten for politisaker) hefur tekið málið til rannsóknar eftir að norsku blöðin Aftenposten og VG greindu frá því á föstudaginn, en svo virðist sem öll aðgerðin hafi í upphafi verið til höfuðs einum manni, Metkel Betew, sem er löngu landsþekktur í Noregi sem einn af ellefumenningunum sem frömdu NOKAS-ránið í miðbæ Stavanger 5. apríl 2004, stærsta bankarán sem framið hefur verið á Norðurlöndunum.

Haustið 2014 hlaut Betew reynslulausn eftir að hafa afplánað tíu ár af sextán ára dómi sem hann hlaut fyrir ránið. Betew hugðist, að eigin sögn, nota nýfengið frelsi sitt til að stunda nám og snúa baki við fortíð sinni í undirheimum Óslóar.

Lánsmenn frá dönsku lögreglunni

Fíkniefnadeild lögreglunnar í Ósló taldi þessi fyrirheit hæpin og sveimuðu óeinkennisklæddir lögreglumenn í kringum Betew nánast frá því að hann gekk út um hliðið á Ila-fangelsinu í Bærum. Var Betew talinn stjórna hópi innflytjenda frá Eritreu, þaðan sem hann sjálfur er upphaflega, og nokkurra félaga í bifhjólasamtökunum Bandidos, sem stæði að fíkniefnainnflutningi auk þess að leggja á ráðin um að ræna verðmætaflutningavél svissneska flugfélagsins Swissair á Gardermoen-flugvelli.

Óslóarlögreglan vildi vera viss um að kunnugleg andlit fíkniefnalögreglumanna kæmu ekki upp um þá svo þeir leituðu til dönsku lögreglunnar þaðan sem þrír menn komu. Þremenningarnir fóru að gera sig heimakomna á bar í miðbæ Óslóar snemmsumars 2015 sem menn úr hópi Betews stunduðu mjög, einkum tveir bræður frá Eritreu sem virtust standa NOKAS-ræningjanum næst. Komið var fyrir földum hlerunarbúnaði um allan barinn, útisvæði hans hlerað með fjarhlustunarbúnaði, svokölluðum hljóðkanónum, og aðgerðin hófst.

Danirnir áunnu sér hægt og bítandi traust réttra bargesta og fóru að ýja að því að þeir væru í góðum tengslum við rússnesku mafíuna auk þess sem þeir ættu í góðu viðskiptasambandi við stóran fíkniefnasala í Hollandi. Fóru leikar svo að í júnílok ferðuðust dönsku lögreglumennirnir til Amsterdam ásamt mönnum Betews og fengu þar afhent 50 kíló af hassi sem þeir smygluðu til baka til Óslóar.

Efnin skyldu afhendast á herbergi Radisson Blu-hótelsins í Alna-hverfinu í Ósló og gekk sú áætlun eftir, lögreglumennirnir afhentu hassið og tóku við greiðslu fyrir flutninginn, 229.000 norskum krónum, andvirði um 3,4 milljóna íslenskra króna. Norska lögreglan lagði hald á peningana en ákveðið var í snarheitum að láta hassið fara sína leið þar sem staðan í málinu bauð ekki upp á handtökur annarra en sendla auk þeirra sem fóru með Dönunum til Amsterdam.

Næst stóð til að flytja 20 kíló af ecstacy sömu leið en sú aðgerð var stöðvuð og hætt við hana þegar dönsku lögreglumennirnir voru komnir til Amsterdam á ný ásamt föruneyti sínu af barnum.

Betew inn á ný eftir 295 daga frelsi

Í ágúst í fyrra taldi lögreglan sig svo hafa næg gögn í stóraðgerð og voru sextán manns handteknir í henni, þar á meðal Metkel Betew sjálfur sem fékk að njóta frelsis á reynslulausn sinni í nákvæmlega 295 daga áður en dyr fangelsisins opnuðust honum á ný – að þessu sinni á leiðinni inn. Þess má geta að hinn 37 ára gamli Betew hefur varið nánast öllum fullorðinsárum sínum í fangelsi en hann var einnig nýkominn út á reynslulausn þegar þeir frömdu NOKAS-ránið vorið 2004.

Liv Øyen, stjórnandi hjá embætti sérstaks saksóknara í lögreglumálum, segist í samtali við VG ekki hafa fengið fulla sýn yfir málið enn þá en geti þó fullyrt að hún hafi aldrei heyrt af nokkru máli innanlands sem komist í hálfkvisti við þetta.

Einar Aas, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló um skipulagða glæpastarfsemi, bendir á að um hafi verið að ræða langa, flókna og mikilvæga lögregluaðgerð sem snerist um að afhjúpa og taka úr umferð mjög hættulega afbrotamenn. Ríkissaksóknari Noregs hafi veitt samþykki sitt fyrir aðgerðinni áður en hún hófst, líkt og lög geri ráð fyrir í tálbeitumálum.

Lögmaðurinn Harald Stabell, sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við um helgina vegna málsins, fellst ekki á skýringar Aas. „Hér hefur það mika þýðingu að lögreglan tekur þátt í og fullfremur afbrot. Smygl á 50 kílóum af hassi sem síðar kemst í umferð á götunni þar sem söluverðmæti þess er 50 milljónir króna [750 milljónir íslenskra króna] hlýtur að krefjast mjög greinargóðra skýringa frá lögreglunni,“ segir Stabell.

Lagaprófessorinn Alf Petter Høgberg við Óslóarháskóla segir málið á vægast sagt gráu svæði, heimildir lögreglu í tálbeitumálum geti aldrei náð til þess að lögreglan sjálf fremji alvarleg afbrot. Efnin sem komust á götumarkað gætu hafnað í höndum unglinga.

Málið þykir allt hið viðkvæmasta, ekki síst i ljósi þess að rykið er rétt sest eftir moldviðrið kringum Eirik Jensen, yfirmann í lögreglunni í Ósló, sem í febrúar var ákærður fyrir að hafa aðstoðað fjárfestinn og fíkniefnabaróninn Gjermund Cappelen við innflutning tæplega fjórtán tonna af hassi á nokkurra ára tímabili og hlotið meðal annars nýja baðherbergisinnréttingu að launum fyrir aðstoðina.

Fréttir norskra miðla um málið:

NRK

Aftenposten

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert