Tugþúsundir í sjálfheldu

Frá Aleppo í Sýrlandi.
Frá Aleppo í Sýrlandi. AFP

Tugþúsundir Sýrlendinga eru í sjálfheldu eftir óvænta árás liðsmanna Ríkis íslams við landamæri Sýrlands og Tyrklands. Að sögn Pablo Marco, forstöðumanns Lækna án landamæra á svæðinu, er ástandið óviðunandi: „Við erum að tala um u.þ.b. 100.000 manns sem eru fastir örfáa kílómetra frá vígamönnum Ríkis íslams. Fólk er skelfingu lostið, það getur hvergi farið.“ 

Liðsmenn Ríkis íslams gerðu atlögu að höfuðvígi uppreisnarmanna í Marea og Azaz í Aleppo héraði á föstudag sem neyddi þúsundir til að leggja á flótta í átt að tyrknesku landamærunum, sem Tyrkir halda lokuðum.

Sameinuðu þjóðirnar segja allt að 165.000 almenna borgara fasta á milli landamæranna, víglínunnar og sjálfsstjórnarsvæðis Kúrda í Afrin vegna átakanna. Talið er að 6.000 manns hafi flúið frá Marea í átt að tyrknesku landamærunum eða til Afrin, en samkvæmt Pablo Marco hafa stjórnvöld Kúrda í Afrin ekki bolmagn til að taka við straumi flóttamanna. Hann biðlar til tyrkneskra yfirvalda og Evrópusambandsins að aðstoða og taka við fleiri sýrlenskum flóttamönnum.

Meira en helmingur íbúa Sýrlands hefur flúið heimili sín frá því átökin brutust út 2011 og tæpar fimm milljónir Sýrlendinga hafa flúið yfir til nágrannaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert