Árásum á albínóa verði að linna

Frá Malaví.
Frá Malaví. AFP

Peter Mutharika, forseti Malaví, segist skammast sín fyrir árásir á albínóa í landinu í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, og hefur biðlað til kirkjunnar að tjá sig um árásirnar. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa að minnsta kosti 65 árásir á albínóa átt sér stað á rúmu ári í Afríkuríkinu.

Árásirnar má rekja til hjátrúar um töframátt sem finna megi í líkamshlutum albínóa, en þeim á að fylgja gæfa og ríkidæmi samkvæmt töfralæknum. Forsetinn segir þetta bábilju, heimsku og fáfræði. „Fólkið, sem segir öðrum að það verði ríkt á þessu, er ekki einu sinni ríkt. Það er klætt lörfum. Hvernig getur slík manneskja gert þig ríkan ef hún getur ekki gert sjálfa sig ríka?“

Forsetinn útilokar ekki að þyngja fangelsisdóma vegna árásanna, en segist ekki ætla að grípa til dauðarefsinga, eins og gert er við morðum í landinu. Þá hafa embættismenn verið sendir til nágrannaríkisins Tansaníu til að læra af reynslu þeirra af sambærilegum árásum. Tansanísk stjórnvöld lögðu bann við töfralæknum á síðasta ári til að sporna við árásum og ránum á albínóum. Sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna, Ikponwosa Ero, varaði við því í apríl að þeim tíu þúsund albínóum sem eru í Malaví yrði útrýmt ef morð vegna líkamshluta þeirra halda áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert