Fær að nota sæði látins eiginmanns

Hjónin bjuggu í París þegar maðurinn lést.
Hjónin bjuggu í París þegar maðurinn lést. AFP

Spænsk kona, sem missti eiginmann sinn í Frakklandi á síðasta ári, vann í dag mál fyrir dómstólum þar í landi og öðlaðist rétt til að nota sæði eiginmanns síns í glasafrjóvgunarmeðferð sem þau hjón höfðu hafið þegar hann lést. 

Mariana Gonzalez-Gomez-Turri hafði fengið synjun frá franska ríkinu um að fá að flytja sæðið frosið til Spánar, þar sem hún býr. Í dóminum, sem kveðinn var upp í dag, kom hins vegar fram að slíkt hefði verið „gróf misbeiting“ á réttindum hennar. 

Dómurinn var kveðinn upp hjá æðsta stjórnsýsludómstól Frakklands, og er niðurstaðan endanleg svo ríkið getur ekki áfrýjað henni. 

Í dóminum kom jafnframt fram að öllum viðeigandi ráðstöfunum skuli beitt svo hægt verði að flytja sæðið til Spánar eins fljótt og auðið er, en þar má nota sæði úr látnum einstaklingi í allt að ár eftir andlát hans.

Eiginmaður konunnar, Nicolas Turri, lést úr krabbameini í júlí á síðasta ári í París, þar sem hjónin bjuggu á þeim tíma. Þegar hann varð veikur ákvað hann að láta frysta sæði úr sér þar sem lyfjameðferðin gæti haft áhrif á frjósemi hans. Hjónin hófu síðan glasafrjóvgunarmeðferð en stuttu síðar lést Turri.

Lögmaður Gomez-Turri sagði í samtali við AFP fréttastofuna að um einstakt mál væri að ræða. Var hann afar ánægður með niðurstöðuna og sagðist nú vonast til þess að hægt væri að flytja sæðið til Spánar fljótt og örugglega í sem bestu ástandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert