Hundurinn Bubba að jafna sig á fíkninni

Bubba er knár þótt hann sé smár. Og nú er …
Bubba er knár þótt hann sé smár. Og nú er hann laus við fíkniefnin úr lífi sínu. Ljósmynd/Lögreglan í Tustin

Hvolpurinn Bubba hefur gengið í gegnum ýmislegt á sinni stuttu ævi. Er lögreglan fann hann, við áhlaup á fíkniefnagreni, var hann uppdópaður. Hann hafði þó ekki valið sér það ástand.

Í mars tók lögreglumaðurinn Jeremy Laurich í borginni Tustin í Kaliforníu þátt í húsleit sem endaði með handtöku eiganda Bubba. Í húsinu fannst mikið magn fíkniefna. Bubba hafði því verið í kringum efnin, komist í nána snertingu við þau, og var í raun uppdópaður er lögreglumaðurinn fann hann. Í blóði hans fundust m.a. leifar af heróíni, metamfetamíni og nikótíni.

Bubba var fluttur í umsjón dýraathvarfs og þar hófst afeitrun hans og endurhæfing, segir í frétt The Dodo um málið. Lögreglumennirnir sem fundu Bubba fylgdust með bata hans allan tímann.

Nýverið var svo komið að því að Bubba hitti aftur bjargvætt sinn, lögreglumanninn Laurich. Lögreglan í Tustin sagði frá endurfundunum og að Bubba væri á góðum batavegi og liði nú vel. 

„Bubba leit mjög vel út, hann er heilbrigður og hamingjusamur,“ stóð í færslu Tustin-lögreglunnar á Facebook. „Hann og lögreglumaðurinn Laurich nutu þess að hittast aftur og vera saman.“

Bubba er ekki alveg tilbúinn að vera ættleiddur og byrja nýjan kafla í lífi sínu en að því kemur fljótlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert