Lengstu lestargöng heims opnuð

Ítölsk lest við nýju göngin í norðri.
Ítölsk lest við nýju göngin í norðri. AFP

Lengstu lestargöng í heiminum verða opnuð í Sviss í dag, næstum sjö áratugum eftir að þau voru fyrst hönnuð af verkfræðingnum Carl Eduard Gruner.

Gotthard Base-göngin eru 57 kílómetra löng og liggja í gegnum Alpana frá Erstfeld í fylkinu Uri til Bodio í fylkinu Ticino í suðri.

Þrátt fyrir að Gruner hafi teiknað göngin árið 1947 hófust framkvæmdir ekki fyrr en árið árið 1999. Kostnaðurinn við göngin nemur 11 milljörðum evra.

Lögreglumaður stendur vörð við göngin.
Lögreglumaður stendur vörð við göngin. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, ásamt svissneskum ráðamönnum verða um borð í lestinni sem fer fyrstu ferðina í dag.

Göngin verða tekin að fullu í notkun í desember næstkomandi. Þá munu göngin stytta ferðalagið frá Zurich til Mílanó í norðurhluta Ítalíu niður tvær klukkustundir og 40 mínútur, sem er um einni klukkustund minna en ferðalagið tekur núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert