Pólverjar fá viðvörun frá ESB

Frans Timmermans, varaforseti Evrópuráðsins, ræðir við blaðamenn um álit sambandsins …
Frans Timmermans, varaforseti Evrópuráðsins, ræðir við blaðamenn um álit sambandsins á stöðu réttarríkisins í Póllandi. AFP

Evrópusambandið varaði í dag pólsku ríkisstjórnina við afleiðingunum dragi hún ekki til baka breytingar á stjórnlagadómstól landsins og fjarlægi „kerfislæga ógn“ við réttarríkið. Pólverjar gætu átt á hættu að missa atkvæðisrétt í ráðherraráði sambandsins.

Viðræður hafa staðið á milli fulltrúa ESB og pólsku stjórnarinnar undanfarna mánuði en Frans Timmermanns, varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, segir að engin lausn hafi fundist á þeim málum sem valda leiðtogum sambandsins mestum áhyggjum.

„Við höfum ákveðið að senda pólskum yfirvöldum álit á réttarríkinu,“ segir Timmermans.

Pólskum stjórnvöldum þykir þó lítið til álitsins koma. Konrad Szymanski, aðstoðarutanríkisráðherra landsins, segir ekkert nýtt að finna í því þar sem ríkisstjórnin hafi átt von á álitinu.

Eftir að hægriflokkurinn Lög og réttlæti fór með sigur af hólmi í þingkosningum í Póllandi seint á síðasta ári hefur pólitísk upplausn ríkt þar. Nýja stjórnin dreif í gegn breytingar á ákvarðanatökuferli stjórnlagadómstóls Póllands sem eru sagðar hafa lamað störf hans.

Í kjölfarið hóf ESB rannsókn á því hvort að breytingarnar samræmdust reglum þess um lýðræði og hvort rétt væri að beita refsiaðgerðum.

Timmermans minntist ekki beinum orðum á refsiaðgerðir gegn Póllandi en þær eru síðasta úrræði sambandsins. Þeim hefur aldrei verið beitt gegn aðildarríki ESB og líklegt er að Ungverjar, sem eru bandamenn Pólverja, myndu koma í veg fyrir að þeim yrði beitt í þessu tilfelli. Samþykki allra aðildarríkjanna þarf fyrir refsiaðgerðum.

Pólska stjórnin hefur tvær vikur til þess að bregðast við áliti ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert