Borgaralaunum hafnað í Sviss

AFP

Svissneskir kjósendur höfnuðu í gær með afgerandi hætti tillögu um að tekin yrðu upp svonefnd borgaralaun í Sviss en tillagan gerði ráð fyrir því að allir löglegir íbúar landsins fengju mánaðarlega 2.500 svissneska franka frá hinu opinbera eða sem nemur um 316 þúsund krónum óháð vinnuframlagi. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

Tillögunni var hafnað með tæplega 77% atkvæða í þjóðaraatkvæðagreiðslunni en 23% studdu hana. Lítill stuðningur var við tillöguna á meðal stjórnmálamanna en enginn þeirra flokka sem sæti eiga á svissneska þinginu studdi hana. Hins vegar tókst að safna yfir 100 þúsund undirskriftum til stuðnings henni og því var hún lögð í þjóðaratkvæði.

Frétt mbl.is: Kosið um borgaralaun í Sviss

Gagnrýnendur sögðu tillöguna rjúfa tengsl vinnuframlags og tekna sem hefði að þeirra sögn slæm áhrif á samfélagið. Stuðningsmenn hennar sögðu tillöguna ekki þýða peninga fyrir ekkert enda væri stór hluti starfa ólaunuð eins og til að mynda heimilisstörf. Þingmaður Svissneska þjóðarflokksins, Luzi Stamm, sagði tillöguna fræðilega ganga upp ef Sviss væri eyja. En með opnum landamærum myndi hún ýta stórlega undir straum fólks til landsins.

Hugmyndin um borgaralaun er einnig í skoðun í Finnlandi þar sem stjórnvöld hafa til skoðunar að gera tilraun með hana sem og í hollensku borginni Utrecht. Hér á landi hafa þingmenn Pírata lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um borgaralaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert