Kóalabirnir kljást við klamydíu

Sæt og ágeng lykt fyllir loftið á dýraspítala í Ástralíu þar sem hin 12 ára kóalabirna, Sherwood Robyn, er í læknismeðferð. Í fjarska virðist ekkert ama að birnunni en þegar nær er komið sést að hún er með „blautan afturenda“, einkenni klamydíusýkingar sem hrjáir þennan viðkvæma stofn í Ástralíu.

Engin læknir er tiltæk og þar sem þessi skæði kynsjúkdómur er langt genginn hjá Robyn er líklegt að hún drepist hægum og kvalarfullum dauðdaga á næstu mánuðum, segja dýralæknar.

Skýringin á hraðri útbreiðslu sjúkdómsins meðal kóalabjarna er sú að búsvæði þeirra fara hratt minnkandi. Þeim er því þröngvað til að búa í mikilli nálægð hver við annan. Við slíkar aðstæður eru samskipti þeirra meiri. Birnirnir eru líka í mikilli samkeppni um birnurnar, þeir keppa um þær m.a. til að helga sér stærra landsvæði. Og landsvæðið er einmitt af skornum skammti.

Staða Robyn er mjög dæmigerð fyrir kóalabirni í Ástralíu. Að þeim er sótt úr mörgum áttum. Þeir þurfa að kljást við búsvæðismissi, árásir hunda, hættu vegna bílaumferðar, loftslagsbreytingar og svo skæða sjúkdóma sem herja á stofninn.

Talið er að yfir 10 milljónir kóalabjarna hafi verið í Ástralíu áður en breskir landnemar komu þangað á síðari hluta átjándu aldar. Nú er talið að stofninn telji um 330 þúsund dýr.

Dýralæknar eru ekki sérstaklega bjartsýnir á frambíð þessara litlu, krúttlegu bjarna. 

Klamydían veldur blindu og ófrjósemi og að lokum dauða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert