((( ))) á lista yfir haturstákn

Það er ekki hægt að leita að ((( ))), sem …
Það er ekki hægt að leita að ((( ))), sem gerir rasistum hægara um vik að nota táknið óáreittir. mbl.is/skjáskot

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Anti-Defamation League hafa bætt tákninu ((( ))) á lista sinn yfir haturstákn, en samtökin segja notkun táknsins á netinu jafngilda meiðandi veggjakroti.

((( ))) er notað til að tákna bergmál en rasistar hafa virkjað það í hatursherferð gegn gyðingum, meðal annars með Chrome-viðbót sem bætti tákninu sjálfkrafa við nöfn þekktra gyðinga á borð við Michael Bloomberg, borgarstjóra New York. Ef viðbótin var virkjuð birtist nafn hans þannig á netinu: (((Michael Bloomberg))).

Google hefur fjarlægt viðbótina.

Blaðamenn Mic sem hafa rannsakað útbreiðslu táknsins rekja hatursfulla misnotkun þess til öfgabloggsins Right Stuff. Áður var hinn þrefaldi svigi notaður til að tákna faðmlag, t.d. (((mamma))), en í áróðursskrifum Right Stuff er talað um að nöfn gyðinga „bergmáli gegnum söguna“. Með öðrum orðum: að meintur skaði sem gyðingar hafa valdið endurómi frá einum áratug til annars.

((( ))) er textaútfærsla hugmyndafræðinnar.

Táknið er aðeins hið nýjasta af mörgum sem rasistar hafa notað til að kallast á. Nýnasistar nota gjarnan töluna 88 til að tákna HH, eða „heil Hitler“, og töluna 14 til að tákna „orðin 14“: We must secure the existence of our people and a future for white children.

Þrátt fyrir að ((( ))) sé nú komið á lista Anti-Defamation League yfir haturstákn eru ekki allir á því að láta táknið falla í hendur rasista. Fjölmargir hafa þegar umvafið nafn sitt tákninu á Twitter í mótmælaskyni og gegn hatursáróðri.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert