Hafnar lögum um staðgöngumæðrun

Stuðningsmenn staðgöngumæðrunar í mótmælagöngu í Frakklandi í maí síðastliðnum.
Stuðningsmenn staðgöngumæðrunar í mótmælagöngu í Frakklandi í maí síðastliðnum. AFP

Forseti Portúgals beitti í dag neitunarvaldi sínu gegn nýju lagafrumvarpi, sem heimilað hefði staðgöngumæðrun í einhverjum þeim tilfellum þar sem par getur ekki eignast barn. Þing landsins samþykkti lögin í síðasta mánuði.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að lögin hafi ekki samræmst þeim skilyrðum sem siðfræðiráð landsins í lífvísindum hafði sett, en ráðið hafði krafist hertari reglna um staðgöngumæðrun.

Andstaða kaþólsku kirkjunnar

Þverpólitískur stuðningur var við frumvarpið en samt sem áður var það aðeins naumur meirihluti þingsins sem samþykkti það. Í lögunum var meðal annars gert það skilyrði að staðgöngumóðirin fengi ekki borgað fyrir mæðrunina.

Lögin hafa mætt mikilli andstöðu frá kaþólsku kirkjunni sem er veigamikil í samfélagi Portúgals. Beiting neitunarvaldsins þarf þó ekki að þýða endalok baráttunnar um að heimila staðgöngumæðrun.

Samkvæmt stjórnarskrá landsins getur þingið haft neitun forsetans að engu, ef algjör meirihluti allra þingmanna leggur stuðning sinn við frumvarpið.

Leyfð í Danmörku, ólögleg á Íslandi

Portúgal er ekki eina Evrópulandið þar sem staðgöngumæðrun er óheimil, en þannig er því einnig háttað í Frakklandi, Þýskalandi og á Ítalíu. 

Í Bretlandi, á Írlandi, í Danmörku og Belgíu er staðgöngumæðrun leyfð ef konan sem gengur með barnið gerir það án þess að fá borgað fyrir, eða aðeins fyrir útlagðan kostnað. Staðgöngumæðrun er enn sem komið er ólögleg á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert