Þúsundir flýja Raqa

AFP

Þúsundir almennra borgara hafa flúið sýrlensku borgina Raqa en hún er nú að mestu leyti umkringd hermönnum sem berjast gegn Ríki íslams en borgin er höfuðvígi samtakanna í Sýrlandi.

Sókn arabískra Kúrda við bæinn Manbij hefur skilað árangri en liðsmenn Ríkis íslams nota bæinn til þess að koma fleiri vígamönnum, vopnum og peningum frá landamærum Tyrklands til Raqa.

„Við höfum umkringt Manbij frá þremur hliðum og aðgerðir ganga vel,“ sagði Sherfan Darwish sem leiðir hersveitir Kúrda og araba á svæðinu. „Á hverjum degi frelsum við fleiri þorp og eini vegurinn sem Ríki íslams getur núna notað er í áttina að Aleppo í vestur.“

Að sögn samtakanna The Syrian Observatory for Human Rights hefur Ríki íslams byrjað að leyfa almennum borgurum að flýja í vestur, sumum í bílum en öðrum gangandi.

Um 20.000 manns búa enn í Manbij en fyrir stríðið voru íbúarnir 12.000, flestir arabar en um fjórðungur sýrlenskir Kúrdar. Ríki íslams tók yfir Manbij árið 2014, aðeins nokkrum mánuðum áður en þeir lýstu yfir „kalífadæmi“ í Írak og Sýrlandi.

Þá hafa vestræn ríki sem starfa með Bandaríkjaher gert loftárásir til þess að styrkja baráttuna gegn Ríki íslams, sérstaklega í Manbij. Orrustuþotur hafa gert að minnsta kosti 35 árásir á Ríki íslams síðan í síðustu viku. Þá hefur 344 ferkílómetra landsvæði verið frelsað undan Ríki íslams síðan 31. maí.

Að sögn bandarískra stjórnvalda taka um 3.000 arabar taka þátt í bardögum á jörðu niðri ásamt um 500 Kúrdum. Að sögn The Syrian Observatory for Human Rights eru þeir um 4.000, flestir Kúrdar.

Þá er stjórnarher Sýrlands, með aðstoð Rússa, aðeins í um 30 km fjarlægð frá bænum Tabqa sem er undir stjórn Ríki íslams. Arabar og Kúrdar eru í um 60 km fjarlægð.

Að sögn The Syrian Observatory for Human Rights hefur Ríki íslams sent fjöldann allan af vopnum og um 100 liðsmenn sína til Tabqa til þess að undirbúa bæinn fyrir bardaga.

Rúmlega 280.000 manns hafa látið lífið í stríðinu í Sýrlandi og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín.

Arabar gegn Ríki íslams nálgast nú Raqa.
Arabar gegn Ríki íslams nálgast nú Raqa. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert