Ljúfur og góður, ekki nauðgari

Loftmynd af Stanford-háskólasvæðinu.
Loftmynd af Stanford-háskólasvæðinu. Wikipedia/Jrissman

Mánuðina áður en dómari kvað upp refsingu í máli Brocks Turner, karlmanns sem var í mars síðastliðnum fundinn sekur um að hafa nauðgað rænulausri konu á skólalóð Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, reyndu fjölskylda og vinir hans að hafa áhrif á niðurstöðu dómarans. Sendu þau honum bréf þar sem þau hvöttu hann til að nýta ekki allan refsirammann í málinu, eða 14 ár.

Turner var dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en saksóknarar höfðu farið fram á sex ára dóm fyrir brotið. Atvikið átti sér stað í janúar í fyrra en hann var tvítugur nemandi við Stanford þegar hann braut gegn konunni. 

Ungi maðurinn var sakfelldur í mars en í byrjun þessa mánaðar var refsingin gerð kunnug. Rúmlega milljón manns hefur skrifað undir áskorun þar sem kallað er eftir því að Aaron Persky, dómari í málinu, verði vikið frá störfum en margir telja að dómurinn hafi tekið of vægt á málinu.

Í bréfi sem systir Turners, Caroline, skrifaði til Persky segir meðal annars að henni finnist að dómarinn verði að vita að myndin sem dregin hafi verið upp af honum sé ekki rétt. Hann sé ekki glæpamaður og ekki sé rétt að hann iðrist ekki. „Brock er ljúfur, hljóðlátur, hæfileikaríkur, duglegur, viðkvæmur, sérstakur, spurull og fyrst og fremst, berskjaldaður ungur maður,“ skrifaði hún.

Caroline segir einnig að hún hafi fylgst með bróður sínum verða skugginn af sjálfum sér eftir árásina í janúar 2015. „Þegar hann sneri aftur frá Kaliforníu nokkrum dögum eftir atvikið man ég að hann hafði mikla þörf fyrir snertingu og faðmlög,“ skrifar hún.

Hún segir að bróðir sinn hafi ekki getað sofið einn og að röð ákvarðana sem hann hafi tekið undir áhrifum áfengis muni skilgreina hann allt hans líf. Nú gæti hann gleymt því að komast á Ólympíuleikana, nú gæti hann gleymt því að verða skurðlæknir. Nú gæti hann kvatt líf sitt eins og það var áður.

„Okkur var verulega brugðið og við vorum dösuð vegna niðurstöðunnar. Við gerðum það eina sem við gátum, að halda hvort utan um annað og gráta. Við trúum þessu ekki enn. Brock er eina manneskjan sem hefur verið gert ábyrgð fyrir gjörðum annarra óábyrgra fullorðinna einstaklinga,“ skrifuðu amma og afi mannsins.

Hér má sjá fleiri bréf sem vinir og ættingjar mannsins skrifuðu og sendu dómaranum. 

Frétt mbl.is: Vilja að dómari verði látinn fjúka

Brock Turner.
Brock Turner.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert