Af hverju vernda lögin gerendur?

Mál Gina-Lisa Lohfink hefur verið til umræðu á þýska þinginu.
Mál Gina-Lisa Lohfink hefur verið til umræðu á þýska þinginu. AFP

Af hverju vernda lögin gerendur en ekki brotaþola? Nei þýðir nei og stopp þýðir stopp.

Þessar spurningar og skilaboð eru nú til umræðu í þýska þinginu eftir að dómstóll í Berlín dæmdi hina  29 ára gömlu Gina-Lisa Lohfink til að greiða 24 þúsund evrur í skaðabætur vegna rangra sakargifta, en hún hafði kært tvo menn fyrir nauðgun.

Málið má rekja til júnímánaðar árið 2012, en þá hafði Lohfink farið út að skemmta sér. Morguninn eftir vaknaði hún á lögreglustöð og mundi ekki hvað hafði gerst kvöldið áður. Eftir að hún var send heim af lögreglu fékk hún fljótlega símtöl frá fréttaþyrstum fjölmiðlum sem þráspurðu hana út í kynlífsmyndband sem hafði verið sett á netið fyrr um daginn.

Í myndbandinu sjást tveir menn hafa mök við unga konu sem virðist ofurölvi. Hún biður mennina ítrekað um að hætta en þeir láta ekki af athæfinu. Lohfink var þekkt í Þýskalandi á þessum tíma m.a. fyrir þátttöku sína í Germany‘s Next Top Model og ekki leið á löngu þar til myndskeiðið hafði ratað á ýmsar klámsíður á veraldarvefnum.

Gina-Lisa Lohfink árið 2011.
Gina-Lisa Lohfink árið 2011. Af Wikipedia

Lohfink kærði mennina fyrir nauðgun og sagði þá hafa byrlað sér ólyfjan um nóttina. Í janúar á þessu ári voru mennirnir sýknaðir og Lohfink dæmd fyrir rangar sakargiftir gegn þeim. Að auki ber henni að greiða 24 þúsund evrur í skaðabætur, rétt tæplega þrjár og hálfa milljón króna. Lohfink hefur áfrýjað dóminum.

Óljós refsilög um kynferðisbrot

Málið hefur komist í hámæli í þýska þinginu sem hyggst gera endurbætur á refsilöggjöf sinni. Þýsk hegningarlög hafa verið afar umdeild þar í landi, en í apríl í fyrra tilkynnti dómsmálaráðuneyti Þýskalands að ráðist yrði í endurbætur á næstu mánuðum. Helst ber þar að nefna ákvæði 117. gr. laganna sem snýr að nauðgunum. Þar segir að svo um nauðgun sé að ræða þurfi gerandi að beita ofbeldi, hótunum eða nýta sér varnarleysi brotaþola með einhverjum hætti.

Af ákvæðinu er ljóst að skilyrðin eru með engu móti tæmandi yfir það sem telst til nauðgunar. Vakin hefur verið athygli á ýmsum tilvikum sem myndu samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins ekki falla undir hugtakið nauðgun. Má þar til dæmis nefna tilvik þar sem hvorki ofbeldi eða hótunum er beitt og brotaþoli streitist ekki á móti af hræðslu við gerandann.

Endurbæturnar voru komnar skammt á veg á nýársdag á þessu ári þegar hundruð kynferðisbrota voru kærð til lögreglunnar í Köln. Ljóst var að lögin gátu ekki valdið  hlutverki sínu og þörf var á endurbótum.

Meginreglan um að nei þýði nei verði virt

Manuela Schwesig, fjölskyldumálaráðherra Þýskalands, segir ljóst að breyta þurfi lögunum. „Við þurfum skýrari refsingar fyrir gerendur. Kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur á að vera verndaður í Þýskalandi,“ sagði Schweisig í samtali við vefútgáfu þýska tímaritsis Spiegel.

„Það er ólíðandi hversu margar konur verða fyrir kynferðisofbeldi. Við sem samfélag þurfum að leggja okkar að mörkum til þess að koma í veg fyrir þessi brot,“ sagði Gesine Agena, stjórnarmaður í flokki Alliance ´90/Grænhreyfingarinnar. „Mál Lohfink minnir okkur á að umbóta er þörf á refsilöggjöfinni. Nei þýðir nei og stopp þýðir stopp. En það virðist samt ekki nægilegt til þess að nauðgun teljist sönnuð,“ bætti hún við.

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, tók í sama streng og segir að reglan um að nei þýði nei eigi að vera grundvallarregla í þýskum refsirétti. „Sú staðreynd að gerendurnir gangi lausir en brotaþolar séu dæmdir sendir ömurleg skilaboð út til allra kvenna,“ sagði Maas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert