Dómarinn víkur sæti í nauðgunarmáli

Mynd af einu dómshúsanna í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu.
Mynd af einu dómshúsanna í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu. Ljósmynd/Wikipedia

Aaron Persky, dómarinn sem dæmdi í byrjun þessa mánaðar karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir að nauðga rænulausri konu á lóð Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, fær ekki að dæma í sams konar máli þar sem hann gæti verið hlutdrægur. Frá þessu greinir AFP.

Saksóknarar í Santa Clara-sýslu í norðurhluta Kaliforníu fóru fram á það í gær að Persky yrði ekki dómari í nauðgunarmáli þar sem karlkyns hjúkrunarfræðingi er gert að sök að hafa nauðgað konu á meðan henni var haldið sofandi.

„Þetta er sjaldgæft en vel ígrundað skref sem við erum að stíga. Í framtíðinni munum við meta hvert mál fyrir sig og ákveða hvort við nýtum lagalegan rétt okkar til þess að óska eftir öðrum dómara til þess að tryggja öryggi almennings og framfylgja réttvísinni,“ sagði Jeff Rosen, umdæmissaksóknari í Santa Clara-sýslu, í yfirlýsingu.

Líkt og greint var frá á mbl fyrr í þessum mánuði skrifuðu yfir milljón manns undir áskorun þar sem kallað var eftir því að Persky yrði vikið frá störfum þar sem dómurinn í nauðgunarmálinu í Stanford-háskóla var of mildur. 

Frétt mbl.is: Vilja að dómari verði látinn fjúka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert