Forsætisráðherra Íraks lýsir yfir sigri

Frá borginni Falluja í Írak.
Frá borginni Falluja í Írak. AFP

Hersveitir íraska stjórnarhersins hafa náð stærstum hluta borgarinnar Falluja á sitt vald. Þær hafa mætt lítilli mótspyrnu vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem hefur ráðið lögum og lofum í borginni frá árinu 2014.

Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að enn sé verk fyrir höndum. Ríki íslams ráði enn yfir einhverjum hluta borgarinnar.

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, fagnaði fregnunum og sagði að borgin hefði loksins verið frelsuð. Hann lýsti í gærkvöldi yfir sigri á sama tíma og hermenn héldu áfram að sækja inn í borgina.

Harðir bardagar hafa geisað á milli íraskra hermanna og vígamanna Ríkis íslams undanfarnar vikur við Falluja, eða allt frá því að stjórnvöld í Bagdad hrundu af stað stórsókn hersins. Er markmið hennar að brjóta liðsmenn samtakanna á bak aftur og endhreimta þannig borgir og bæi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert