Bretar færu aftur á byrjunarreit

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Bresk stjórnvöld munu þurfa að hækka skatta eða skera niður eða eiga í hættu á að „fara aftur á byrjunarreit“ ef Bretar samþykkja að segja skilið við Evrópusambandið. Þetta segir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Breta innan Evrópusambandsins fer fram á fimmtudaginn í næstu viku.

Í sjónvarpsþættinum Question Time í kvöld sagði Cameron meðal annars að kostnaður fylgdi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Það væri óumflýjanleg staðreynd sem Bretar þyrftu að horfast í augu við. Ráða þyrfti bót á því. Ekki væri hægt að gera ekki neitt.

Cameron er ekki fyrsti breski ráðamaðurinn til þess að hóta skattahækkunum og niðurskurði ákveði Bretar að yfirgefa ESB. George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, hefur jafnframt varað við því að hækka þurfi skatta um nokkur prósentustig og skera niður almannaþjónustu ef Bretar segja skilið við sambandið.

Cameron hefur verið einn helsti talsmaður áframhaldandi veru Breta í sambandinu.

Hann var margoft spurður um innflytjendamál og fyrri loforð hans um að draga úr straumi flóttamanna til Bretlands.

Þeir sem berjast fyrir útgöngu Breta úr ESB hafa bent á að grundvallarregla Evrópusambandsins um frjálst flæði fólks komi í veg fyrir að Bretar geti „stjórnað landamærum“ sínum, eins og það er orðað.

Cameron sagði það hafa verið erfitt að hafa stjórn á straumi flóttamanna til landsins, vegna þess að „mjög margir vilja koma hingað til lands“.

Hins vegar væri engin töfralausn til. Það að yfirgefa Evrópusambandið og innri markað þess væri ekki rétta leiðin til þess að stjórna innflutningi fólks.

Hann benti einnig á að ákvörðun um að segja skilið við Evrópusambandið yrði óafturkræf. Hún myndi jafnframt leiða til mikillar efnhagslegrar óvissu næsta áratuginn.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert