„Stórslys“ yfirvofandi í Falluja

Aðstæður eru skelfilegar í flóttamannabúðum fyrir utan borgina Falluja.
Aðstæður eru skelfilegar í flóttamannabúðum fyrir utan borgina Falluja. AFP

Stórslys er yfirvofandi í írösku borginni Falluja, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Fjöldi óbreyttra borgara flýr nú borgina og segjast hjálparstofnanir eiga í erfiðleikum með að útvega fólkinu fæðu, vatn og lyf.

Um áttatíu þúsund manns hafa flúið borgina á undanförnum fjórum vikum. Á sama tíma hafa íraskar hersveitir hrakið vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams úr stórum hluta borgarinnar. Lýsti forsætisráðherra Íraks yfir sigri á fimmtudag.

Borgin hafði áður verið á valdi Ríkis íslams frá árinu 2014.

Sameinuðu þjóðirnar benda á að 25 þúsund manns til viðbótar reyni líklegast að flýja borgina á næstunni.

Fjölmargir sofa nú undir berum himni í nágrenni við Falluja. Hjálparstofnanir segjast eiga í erfiðleikum með að útvega öllu þessu fólki mat, vatn og lyf, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Nasr Muflahi hjá norsku flóttamannahjálpinni segir að hjálparstofnanir geti ekki brugðist við neyð allra þeirra sem hafa flúið Falluja að undanförnu. Fjöldinn sé það mikill.

Hann biðlar til íraskra stjórnvalda að grípa til aðgerða og sporna gegn því „stórslysi“ sem er í uppsiglingu.

Íraskar hersveitir hafa ekki enn náð yfirráðum yfir nokkrum hverfum borgarinnar, en þar geisa nú miklir bardagar.

Falluja er í aðeins fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Bagdad, höfuðborg Íraks.

Í frétt BBC segir að margir þeirra sem flýja nú borgina neyðist til þess að sofa undir berum himni. Hitinn á daginn sé síðan gríðarlegur, en spáð er allt að 47 stiga hita á næstu dögum.

Skortur á hjálparbirgðum er fyrirsjáanlegur. Flóttamannabúðirnar eru yfirfullar og aðstæður þar skelfilegar. Í flóttamannabúðunum í Amriyat al-Falluja er til að mynda aðeins einn kamar fyrir 1.800 konur, að sögn Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert