Reyndir sjómenn og landkrabbar til bjargar

Þeir eru við fyrstu sýn ólíklegt teymi; sjómennirnir og hjálparstarfsmennirnir, sem upp til hópa eru landkrabbar. En nú starfar þetta fólk hlið við hlið á björgunarskipinu Aquarius með það eitt að markmiði að bæta heiminn.

Áhöfn Aquarius hóf þátttöku í björgunaraðgerðunum á Miðjarðarhafi, aðallega undan ströndum Líbíu, í febrúar. Mannúðarsamtök höfðu tekið skipið á leigu og frá því í febrúar hefur áhöfn þess bjargað lífi yfir 1.500 manna og komið þeim til ítalskra hafna. 

Aquarius var áður í eigu þýsku strandgæslunnar en árið 2009 var það notað við olíuleit allt frá Nígeríu til Suðurskautslandsins. Núna er það fullt af björgunarvestum, teppum, mat og vatnsflöskum.

Á þilfarinu skiptast sjálfboðaliðar mannúðarsamtakanna SOS Mediterranee á að standa vaktina. Nokkrir þeirra eru sjómenn, sem áður voru t.d. hásetar á flutningaskipum. Hópurinn samanstendur því af „gömlum hundum“ og „landkröbbum“ eins og sjálfboðaliðarnir orða það sjálfir. Allir eru þeir að vinna kauplaust í fríi frá öðrum störfum eða námi.

„Að vinna bara fyrir sjálfan sig er ekki endilega það sem gerir þig stoltan af þessu lífi,“ segir 25 ára sjómaður af flutningaskipi sem ákvað að ganga í raðir sjálfboðaliða í nokkrar vikur.

Neðan þilja heldur hjúkrunarteymið sig. Í því eru læknir, ljósmóðir, tveir hjúkrunarfræðingar og tveir tæknimenn. Þeir eru ávallt viðbúnir því að fá flóttamenn um borð. Flóttafólkið dvelur um borð allt frá nokkrum klukkustundum til nokkurra daga. 

 Flestir þeirra sem eru í teyminu hafa aldrei farið um borð í skip áður. Þeir hafa hins vegar mikla reynslu af því að vinna á hamfarasvæðum, s.s. í Vestur-Afríku er ebólufaraldurinn geisaði og í Nepal í kjölfar jarðskjálftanna. 

Það sem er einnig eftirtektarvert um borð í Aquarius er trúfesta áhafnarinnar sem er aðallega saman sett af Rússum og Úkraínumönnum. Enginn þeirra valdi það beinlínis að sinna þessu björgunarstarfi en þeir hafa engu að síður lagt sál sína í verkefnið.

Það er lagaleg og siðferðisleg skylda þeirra sem sigla um heimsins höf að koma fólki í sjávarháska til bjargar. En flóttamannastraumurinn yfir Miðjarðarhafið flækir málin hjá áhöfnum flutningaskipa. Áhafnirnar óttast m.a. sýkingarhættu. 

En reyndir sjómenn vita hvernig á að bera sig að. Og þannig er það um borð í Aquarius. Ebenezer Tandot, 45 ára, hefur lengi starfað við olíuborpallana í Norðursjó. Hann veit að það tekur ekki meira en nokkrar mínútur að ofkælast eða örmagnast í sjónum. 

 Það þarf líka að kunna réttu handtökin þegar ofkælt og örmagnað fólk er tekið um borð. Að vinna við þessar aðstæður hefur þjappað öllum þeim sem vinna að björgunarverkefninu á Aquarius saman. „Okkur líður öllum eins og einu stóru teymi og reynum öll að gera okkar besta þegar við erum að bjarga fólki,“ segir annar læknirinn. 

Skipstjórinn er Hvít-Rússi. Hann tekur við skilaboðum frá ítölsku strandgæslunni um hvert skuli halda til að koma fólki í vanda til bjargar. „Mér líður eins og ég eigi að vera hérna, að ég sé að gera eitthvað gott,“ segir skipstjórinn Alexander Moroz, sem hefur hingað til siglt flutningaskipum um öll heimsins höf. „Stóra spurningin er, ef við værum ekki hérna, hversu margir til viðbótar hefðu þegar drukknað?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert