Björn réðst á maraþonhlaupara

Karen Williams birti þessa mynd af sér á Facebook-síðu sinni.
Karen Williams birti þessa mynd af sér á Facebook-síðu sinni. Af Facebook

Maraþonhlaupari neyddist til að þykjast vera dáinn eftir að hann varð fyrir árás svartbjarnar er hann átti um 5 km eftir af maraþonhlaupi í Nýju-Mexíkó.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að Karen Williams hafi verið að hlaupa á skógivöxnum hæðum er hún raskaði ró kvenkyns bjarndýrs sem var með þrjá húna með sér.

Birnan réðst á hana, klóraði hana og beit hana í hálsinn og höfuðið. Þá greip Williams til þess ráðs að leggjast í jörðina og þykjast vera dáin. Birnan ráfaði um í kringum hana en lagði svo á flótta nokkrum mínútum síðar. 

Árásin átti sér stað á laugardag. Williams hlaut töluverð meiðsli, m.a. skurði á líkamann og brákaða augntóft. 

„Ég reyndi að líta í kringum mig en gat ekki séð margt. Ég reyndi að setjast upp en var óglatt og gat ekki hreyft handleggina,“ skrifað Williams á Facebook-síðu sína.

Hún segist hafa legið á jörðinni í um hálftíma áður en aðrir hlauparar komu að og henni til aðstoðar. Williams var svo flutt á sjúkrahús með þyrlu.

Yfirvöld fundu birnuna og aflífuðu hana en samkvæmt lögum í Nýju-Mexíkó verður að aflífa villt dýr sem ráðast á fólk og rannsaka hvort þau séu með hundaæði. Húnar birnunnar hafa enn ekki fundist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert