Brexit: Kosið eftir tvo daga

Bretar kjósa um áframhaldandi aðild landsins að Evrópusambandinu næsta fimmtudag.
Bretar kjósa um áframhaldandi aðild landsins að Evrópusambandinu næsta fimmtudag. AFP

Eftir tvo daga ganga Bretar til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem borin verður upp spurningin: „Ætti Bretland að vera áfram í Evrópusambandinu eða segja sig úr Evrópusambandinu?“ Kjósendur láta skoðun sína í ljós með því að setja „X“ fyrir framan annan hvorn valmöguleikann.

Hatrömm kosningabarátta var rekin af báðum fylkingunum síðustu vikur þegar skyndilega sló þögn á baráttu beggja fylkinga eftir að ráðist var á þingmann Verkamannaflokks Bretlands, Jo Cox. Hún var stungin og skotin til bana í breska bænum Birstall þegar hún var á leið til fundar með kjósendum í kjördæminu sínu.

Frétt mbl.is: Morðið á Cox gæti róað baráttuna

Nokkrum tímum eftir morðið gáfu báðar fylkingar það út að þriggja daga hlé yrði gert á kosningabarátunni. En Adam var ekki lengi í Paradís og hófst kosningabaráttan með miklum látum strax aftur á sunnudag. Sakaði Nigel Farage, formaður Sjálfstæðisflokks Bretlands og einn forystumanna Brexit-fylkingarinnar, Evrópusinna um að notfæra sér morðið á Cox málstað sínum til hagsbóta.

Vísaði hann þar líklega m.a. til orða Stephen Kinnock, þingmanns Verkamannaflokksins, sem gagnrýndi auglýsingu Brexit þegar breska þingið kom saman í gær til að minnast Cox. „Ef ótti, óör­yggi og reiði er notað til að kveikja neista þá er spreng­ing­in óhjá­kvæmi­leg,” sagði Kinnock um málflutning Brexit-fylkingarinnar og gagnrýndi auglýsingu sem Brexit birti nokkrum tímum fyrir morðið á Cox.

Í auglýsingunni var mynd af flóttamönnum á vergangi undir yfirskriftinni: „Komið að þolmörkum, en breskir ESB-andstæðingar hafa gengið hart fram í gagnrýni þeirra á flóttamannavandanum sem ríkir innan Evrópusambandsins.

David Cameron lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir síðustu þingkosningar

Aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar nær til þingkosninganna í Bretlandi á síðasta ári. Kosningaloforð Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Breta að Evrópusambandinu ef Íhaldsflokkurinn sigraði kosningarnar.

Sagði Cameron tímabært að fá niðurstöðu í Evrópumálin í breskum stjórnmálum fyrir fullt og allt í ljósi breytinga á Evrópusambandinu frá því að Bretar gengu inn í sambandið á sínum tíma. Íhaldsflokkurinn bæti við sig 24 sætum í þingkosningunum og náði samtals 330 þingsætum. 

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofaði atkvæðagreiðslu um ESB sigraði Íhaldsflokkurinn …
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofaði atkvæðagreiðslu um ESB sigraði Íhaldsflokkurinn síðustu þingkosningar, sem flokkurinn endaði á að gera. AFP

Þrýstingurinn á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB kom að stórum hluta frá þingmönnum Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokks Bretlands sem segja Breta aldrei hafa fengið að segja sína skoðun á aðild Bretlands að Evrópusambandinu. Bretar kusu þó árið 1975 um aðild landsins að evrópska efnahagsbandalaginu.

Voru kjósendur þá spurðir, í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin var á landsvísu í Bretlandi, hvort þeir teldu að Bretland ætti að vera áfram innan evrópska efnahagsbandalagsins. 67 prósent þjóðarinnar svöruðu spurningunni játandi.

Hnífjafnt samkvæmt skoðanakönnunum

Bretar, Írar og íbúar breska samveldisins, 18 ára og eldri og eru búsettir á Bretlandi eða Gíbraltar eru kjörgengir á fimmtudag sem og breskir ríkisborgarar í öðrum löndum sem hafa verið á kjörskrá í Bretlandi síðustu 15 árin að því er fram kemur á vef bresku ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Líkt og mbl.is greindi frá í morgun eru fylkingarnar tvær nánast hnífjafnar skv. nýjustu skoðanakönnunum. Í könnun ORB sem gerð var fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph mælist stuðningur við áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu 49% á móti 47% stuðning við úrsögn úr sambandinu.

Í könnun YouGov sem var gerð fyrir Times mælist stuðningur við úrsögn 44% en stuðningur við úrsögn 42%.

Frétt BBC.

Vefur bresku ríkisstjórnarinnar um kosninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert