Drottningin spurði um Brexit

Elísabet Bretadrottning.
Elísabet Bretadrottning. AFP

„Gefið mér þrjár góðar ástæður fyrir því hvers vegna Bretland ætti að vera áfram hluti af Evrópusambandinu.“ Þetta er haft eftir Elísabetu Bretadrottningu á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en ummælin eru sögð hafa fallið í matarboði þar sem drottningin hafi gert að umtalsefni fyrirhugað þjóðaratkvæði um veru Bretlands í sambandinu.

Ævisöguhöfundur Elísabetar, Robert Lacey, greindi frá ummælum hennar en hann segir að þau kunni að benda til þess að drottningin vilji að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Breska hirðin hefur þó ekki viljað staðfesta né hafna því að Elísabet hafi rætt þessi mál í einkasamtölum en heimildarmenn innan hirðarinnar hafa bent á að ummælin sem eignuð væru drottningunni fælu í sér spurningu en ekki yfirlýsingu.

Hins vegar segir í fréttinni að eðli hinnar meintu spurningar renni frekari stoðum undir fyrri fullyrðingar um að Elísabet vilji sjá Bretland yfirgefa Evrópusambandið. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert