Einn látinn og þrír slasaðir eftir stunguárás í verslunarmiðstöð

Vopnaðar árásir eru afar sjaldgæfar í Japan.
Vopnaðar árásir eru afar sjaldgæfar í Japan. AFP

Maður var handtekinn í Japan í dag eftir að hafa stungið eina konu til bana og sært þrjár aðrar í verslunarmiðstöð í norðurhluta landsins, en vopnaðar árásir eru afar sjaldgæfar í Japan sem þykir með löghlýðnustu ríkjum.

Maðurinn, Nobuyuki Matsuhashi, réðst á konurnar með hníf við inngang verslunarmiðstöðvar í borginni Kushiro samkvæmt upplýsingum frá talsmanni lögreglu.

Kona á sjötugsaldri lést og þrjár aðrar konur voru særðar í árás Matsuhashi, sem var snarlega yfirbugaður af öryggisvörðum.

Er Matsuhashi sagður eiga við andlega erfiðleika að stríða, en að sögn Jiji-fréttastofunnar sagði hann lögreglu að hann langaði að binda endi á líf sitt og að hann vildi vera tekinn af lífi fyrir morð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert