Fjórir látnir vegna hitabylgju

AFP

Fjórir hið minnsta eru látnir í hitabylgju sem gengið hefur yfir vesturhluta Bandaríkjanna og meðal annars leitt til sinuelda og rýmingar á húsum á svæðinu. Hinir látnu létust í Arizona-ríki á sunnudaginn. Þrír þeirra voru í fjallgöngu en sá fjórði á ferð um fjalllendi á fjallahjóli.

Haft er eftir Larry Subervi, talsmanni slökkviliðsins í borginni Phoenix, í frétt AFP að sá síðastnefndi hafi verið 28 ára gamall karlmaður sem hafi haft mikla reynslu af ferðalögum á fjallahjóli. Hann hafi lagt af stað í nokkurra klukkustunda ferð í nágrenni borgarinnar með nægar vatnsbirgðir en engu að síður orðið að láta í minni pokann fyrir hitanum.

Hinir þrír létust í nágrenni borgarinnar Tucson. Þar á meðal var 57 ára gamall þýskur karlmaður að nafni Stefan Guenster sem var í fjallgöngu með tveimur öðrum Þjóðverjum. Annar þeirra fór niður til byggða til þess að sækja aðstoð en þegar björgunarfólk kom á staðinn var Guenster látinn og þriðja manninn, Marcus Turowski, var hvergi að sjá. Hann er enn ófundinn.

Hitabylgjan kostaði einnig 54 ára gamla konu lífið en hún hafði farið í gönguferð um fjalllendi í nágrenni Tucson og fannst látin eftir að eiginmaður hennar lét vita að hún hefði ekki skilað sér heim aftur. Haft er eftir Subervi að hitabylgjur komi á hverju ári á svæðinu en í ár sé hún við það að slá metið frá 1990 þegar hitinn var um 50 gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert