Frakkar og Þjóðverjar leiði ESB

Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. AFP

„Hvert er vandamálið í dag? Það er engin forysta vegna þess að í samstarfi Frakklands og Þýskalands vantar Frakkland,“ sagði Nicholas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, í dag eftir fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Beindi hann þar spjótum sínum að Francois Hollande, forseta Frakklands. Lagði Sarkozy áherslu á mikilvægi þess að stærstu ríki Evrópusambandsins, Frakkland og Þýskaland, veittu sambandinu forystu.

Sarkozy kallaði eftir því á fundinum með Merkel að Frakkland og Þýskaland hefðu forystu um að Evrópusambandið kæmi sér upp nýjum sáttmála í kjölfar þjóðaratkvæðisins í Bretlandi um veru landsins í sambandinu þar sem send yrðu skýr skilaboð um að hlustað væri á áhyggjur almennings. Þetta væri nauðsynlegt til þess að bjarga sambandinu. 

Sarkozy sagðist telja sig hafa stuðning Merkel í málinu. Þá sagði hann að gott væri að fram undan væru kosningar í Frakklandi. Forsetinn fyrrverandi hefur áður lýst áhuga sínum á að taka aftur þátt í frönskum stjórnmálum, en Hollande hefur glímt við miklar óvinsældir heimafyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert