Nauðguðu og myrtu almenna borgara

Jean-Pierre Bemba var í dag dæmdur í 18 ára fangelsi.
Jean-Pierre Bemba var í dag dæmdur í 18 ára fangelsi. AFP

Kongómaðurinn Jean-Pierre Bemba, fyrrverandi uppreisnarleiðtogi, hefur verið dæmdur í 18 ára fangelsi í Alþjóðaglæpadómstólnum fyrir stríðsglæpi og kynferðisofbeldi.

Bemba var dæmdur sekur í mars en glæpirnir voru framdir í Mið-Afríkulýðveldinu 2002 og 2003 en hann er sakaður um að hafa ekki stöðvað uppreisnarmenn í því að drepa og nauðga fólki.

Lögmenn Bemba hafa þegar sagt að úrskurðinum verði áfrýjað. Við úrskurðinn sagði dómarinn Sylvia Steiner að Bemba hafi mistekist að stjórna uppreisnarmönnum sínum þegar þeir voru sendir til Mið-Afríkulýðveldisins. Þar frömdu þeir „sadista“-nauðganir, morð og grimmdarleg rán.

Bemba sendi rúmlega 1.000 skæruliða til Mið-Afríkulýðveldisins til þess að aðstoða forsetann fyrrverandi Felix Patasse við að stöðva tilraun til valdaráns.

Við réttarhöldin birtust frásagnir af skæruliðum Bemba og ofbeldisverkum þeirra gegn almennum borgurum. Að mati dómara vissi Bemba af glæpunum en gerði ekkert til þess að stöðva þá. 

Þetta er í fyrsta skiptið sem Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur lagt áherslu á nauðganir sem stríðsvopn og fyrsta skipti sem einhver er dæmdur fyrir glæpi sem aðrir frömdu undir hans stjórn. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert