Rannsaka spillingu opinberra starfsmanna

Þrjátíu opinberir starfsmenn í Danmörku voru handteknir í dag í …
Þrjátíu opinberir starfsmenn í Danmörku voru handteknir í dag í umfangsmikilli lögregluaðgerð. mbl.is/Ómar

Þrjátíu opinberir starfsmenn í Danmörku voru í dag handteknir og heimili þeirra rannsökuð sem hluti af stórri lögreglurannsókn sem beinist að spillingu og mútugreiðslum frá tölvuþjónustufyrirtækinu Atea.

Efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar hefur rannsakað tölvupósta sem sendir hafa verið frá Atea og svo virðist sem margir fyrrverandi og núverandi starfsmenn hins opinbera hafi þegið gjafir í formi snjallsíma, tölva og í einhverjum tilfellum ferða. Verðmæti gjafanna eru sögð á bilinu 80 þúsund íslenskra króna til einnar milljónar króna.

Lögreglan réðst í handtökurnar og leit á heimili starfsfólksins í samstilltum aðgerðum í dag. Málið hófst eftir að opinbert embætti á Sjálandi kærði tölvuþjónustufyrirtækið til lögreglu. Eru margir af forsvarsmönnum fyrirtækisins til rannsóknar hjá lögreglu en fyrirtækið er stærsti tölvuþjónustuveitandi hins opinbera í Danmörku.

Hinir opinberu starfsmenn sem handteknir voru í dag koma úr ýmsum áttum. Samkvæmt heimildum danska dagblaðsins Politiken er um að ræða starfsmenn meðal annars utanríkisráðuneytisins, ríkislögreglustjóra, ákæruvaldsins, Kaupmannahafnaborgar, fangelsismálastofnunar og danska hersins. Er því ljóst að um umfangsmikið mál er að ræða.

Fjórir starfsmenn Atea eru grunaðir í málinu en með rannsókn málsins fer ákærusvið danska hersins.

Ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir neinum af þeim 30 sem handteknir voru í dag. „Handtökurnar í dag eru liður í stærri rannsókn. Það er mikilvægt að ásakanir um spillingu hjá hinu opinbera séu teknar alvarlega, og er þetta mál gott dæmi um slíkt,“ segir Morten Niels Jakobsen ríkissaksóknari í samtali við Politiken.

Ferðirnar, sem nokkrir opinberir starfsmenn eru grunaðir um að hafa þegið, voru ferðir til Dúbaí og voru þær greiddar að fullu af fyrirtækinu. Einn hinna grunuðu er sagður hafa haft aðgang að bankareikningi á vegum fyrirtækisins. Á bankareikningnum var ein milljón danskra króna. 

Sjá frétt Politiken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert