Rassskellti bankastarfsmenn

Málið hefur vakið mikla reiði.
Málið hefur vakið mikla reiði. Skjáskot úr myndbandinu

Kínverskir miðlar hafa nú birt myndband sem sýnir yfirmann í kínverskum banka rassskella starfsfólk fyrir slaka frammistöðu í starfi. Myndbandið hefur vakið mikla reiði og umræðu um umhverfi á vinnustöðum í landinu.

Í myndbandinu má sjá mann spyrja átta starfsmenn af hverju þeir „fóru ekki fram úr sér“ við þjálfun. Starfsfólkið reynir að svara en yfirmaðurinn heldur áfram.

„Gerið rassana ykkar tilbúna,“ segir hann og fer að rassskella starfsmennina með því sem virðist vera þykk viðarplata.

Myndbandið er tekið í borginni Changzhi í norðurhluta Kína. Að sögn The Beijing Times hefur tveimur yfirmönnum í bankanum verið vikið úr starfi tímabundið.

Myndbandið fór í dreifingu í gær og virðist hafa verið tekið upp á farsíma. Má sjá yfirmanninn fara að minnsta kosti fjórar umferðir yfir hópinn og rassskella fólkið. Ein kona reynir alltaf að hörfa undan og er augljóslega kvalin.

Maðurinn sem rassskellti fólkið baðst síðan formlega afsökunar en það hefur ekki sefað reiði fólks. „Þegar ég sá þetta fyrst hélt ég að þetta væri einhver auglýsingabrella en ég trúi því ekki að þetta sé alvöru,“ sagði einn notandi samfélagsmiðilsins Weibo. „Þetta er ekkert nema niðurlægjandi og svo hræðilegt að horfa á, hvar eru leiðtogagildin?“

Annar notandi kallaði eftir hörðum viðbrögðum og að bankinn ætti einfaldlega að loka.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert