„Sprengjubeltið“ fullt af salti og kexi

Maðurinn sem var handtekinn í miðborg Brussel í morgun með falsað sprengjubelti hefur glímt við andleg veikindi. „Sprengjubeltið“ svokallaða var fullt af salti og kexi þegar hann var handtekinn en hann bar ábyrgð á sprengjuhótun á verslunarmiðstöð í borginni.

Öryggisstig í landinu er enn gríðarlega mikið eftir hryðjuverkaárás í Brussel í mars þar sem 32 létu lífið. Enn er verið að rannsaka hvort maðurinn sem var handtekinn í morgun tengist hryðjuverkasamtökum eða ekki en hann hélt því einu sinni fram að hann hafi reynt að ganga til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi.

Maðurinn er 26 ára og hefur aðeins verið nafngreindur sem J.B. Hann hringdi í lögreglu í morgun og sagðist hafa verið rænt í bíl og hent út við City 2 verslunarmiðstöðina með sprengjubelti um sig miðjan.

Talsmaður saksóknara, Rym Kechiche, sagði í yfirlýsingu að beltið hafi verið fullt af kexi og salti og að engin ógn stafaði af manninum. Kom jafnframt fram að J.B. væri þekktur í kerfi yfirvalda, m.a. vegna andlegra veikinda.

Í kjölfar símtalsins frá J.B. fóru af stað gríðarlegar öryggisaðgerðir þar sem öllum inngöngum inn á Rogier -estarstöðina í næsta nágrenni var lokað nema einum. Þangað voru hermenn sendir sem leituðu í töskum farþega. Þá var verslunarmiðstöðinni lokað og hún girt af ásamt götum í kring. 

Fyrri frétt mbl.is: Engin sprengja fundin

Fyrri frétt mbl.is: Handtekinn vegna sprengjuviðvörunar í Brussel

Lögregla var með víðtækar aðgerðir í morgun.
Lögregla var með víðtækar aðgerðir í morgun. AFP
Verslunarmiðstöðin var girt af.
Verslunarmiðstöðin var girt af. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert