Banna mótmælaaðgerðir í París

Eftirlitsskjáir í höfuðstöðvum Parísarlögregunnar. Mikið álag er nú á frönsku …
Eftirlitsskjáir í höfuðstöðvum Parísarlögregunnar. Mikið álag er nú á frönsku lögreglunni vegna EM og mótmælaaðgerða verkalýðsfélaga. AFP

Lögregluyfirvöld í París hafa bannað mótmæli sem áttu að fara fram í borginni á morgun, en mótmælagöngur undanfarið hafa  leyst upp í óeirðir. Í yfirlýsingu frá lögreglu borgarinnar segir að hún eigi „ekki annars kost“ en að banna mótmæli vegna breytinga á vinnulöggjöf landsins.

Francois Holland Frakklandsforseti hótaði því fyrr í mánuðinum að banna verkföll og mótmælaaðgerðir í borginni, þar sem þær spilltu upplifun þeirra sem komnir eru til landsins til að fylgjast með Evrópumótinu í fótbolta.

Fjörutíu manns slösuðust og tugir voru handteknir eftir síðustu mótmæli, 15. júní, þar sem mótmælendur börðust við lögreglu á götum Parísar og annarra borga. Þá notaði lögregla háþrýstidælur til að dreifa mótmælendum.

Mikill öryggisviðbúnaðar er í Frakklandi vegna hættu sem talin er á hryðjuverkaárásum meðan á Evrópumótinu í fótbolta stendur. Mótmæli verkalýðsfélaganna hafa gert löggæsluaðgerðir enn umfangsmeiri og erfiðari fyrir frönsku lögregluna en ella. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert