Danir hvattir til að læra íslenska þjóðsönginn

Íslenski þjóðsöngurinn er bæði textaður og þýddur í flutningi Staka …
Íslenski þjóðsöngurinn er bæði textaður og þýddur í flutningi Staka á vefsíðu Politiken.

Vefur danska dagblaðsins Politiken hvetur Dani til að læra íslenska þjóðsönginn fyrir leik Íslands og Austurríkis nú síðar í dag og nota síðan tækifærið til að syngja með landsliðinu við upphaf  leiksins.

„Á Politiken höldum við með Íslandi eins og þekkt er orðið,“ segir í umfjölluninni. Íslenska kórnum Staka hafi því verið boðið í hljóðver þar sem þjóðsöngurinn hafi verið tekinn upp. Politiken hiki ekki við að kalla Lofsöng Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við ljóð Matthíasar Jochumssonar fallegasta þjóðsöng í heimi. Afraksturinn af samstarfinu við Staka sé nú  að finna á vef Politiken ásamt texta og þýðingu.

Þjóðsöngurinn á vef Politiken

„Nú hefur þú tækifæri að læra hann – svo þú getir öskrað með þegar flautað er til leiks á móti Austurríki,“ segir á vefnum sem lýkur svo umfjölluninni á rammíslensku „Áfram Ísland!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert