Glæpagengi notfæra sér börn

Börn flóttamanna að leik í Grikklandi. Börn hælisleitenda og flóttamanna …
Börn flóttamanna að leik í Grikklandi. Börn hælisleitenda og flóttamanna eru í áhættuhópi þegar kemur að glæpagengjum. AFP

Lögregla í Hollandi segir að um 300 börn séu notuð í Evrópu af glæpagengjum sem neyða þau til þess að stela allt að þúsund evrum á dag, jafnvirði 138.000 króna.

Nýlega hefur lögregla afhjúpað fjögur glæpagengi sem vinna kerfisbundið að því að nýta sér börn í þessum tilgangi. Þau starfa í Hollandi, á Spáni, í Austurríki, Króatíu og Bosníu.

Sex börn sem höfðu horfið frá Hollandi fundust í Barcelona á Spáni í síðustu viku þar sem þau bjuggu við skelfilegar aðstæður ásamt pari á fimmtugsaldri. Parið var handtekið en þau eru frá Austur-Evrópu. Börnin voru öll undir fimmtán ára aldri og þar var m.a. eitt smábarn.

Að mati saksóknara er um að ræða nútímaþrælahald.

Aðgerðir lögreglu gagnvart glæpagengjum sem notfæra sér börn hófust í Hollandi fyrir um ári þegar rannsakendur tóku eftir hópi barna sem var notaður í vasaþjófnað á aðallestarstöðinni í Amsterdam. Var augljóst að börnunum var stjórnað af fullorðnum.

Börnin voru tekin úr skóla og látin bæði stela af fólki og í búðum og þá telja yfirvöld að stúlkur hafi jafnframt verið kynferðislega misnotaðar og urðu oft óléttar.

Fyrrnefnt par er grunað um að starfa innan kerfis glæpagengja sem notfærir sér börn og er gert ráð fyrir því að parið verði framselt til Hollands. Þau eru grunuð um mansal, notkun falskra skilríkja og að fjarlægja börn frá félagsmálayfirvöldum.

Hollenskir miðlar hafa greint frá því að sum barnanna hafi verið í sérstöku kerfi fyrir börn hælisleitenda og hurfu af heimili á vegum yfirvalda í Norðaustur-Hollandi.

Saksóknarinn Warner ten Kate segir að málið sem kom upp í Barcelona sé aðeins „toppurinn á ísjakanum“ og að án efa séu fleiri börn sem lenda í álíka aðstæðum í Hollandi.

Lögregla telur að börnin hafi komið úr fátækum fjölskyldum í Bosníu og öðrum löndum sem áður mynduðu Júgóslavíu. Að mati lögreglu eru börn flóttamanna og hælisleitenda í áhættuhópi þegar kemur að glæpagengjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert