Heimskulegt að setja tolla á Breta

Spennan magnast í Bretlandi en þjóðaratkvæðagreiðslan um framtíð landsins innan …
Spennan magnast í Bretlandi en þjóðaratkvæðagreiðslan um framtíð landsins innan ESB fer fram á morgun. AFP

Markus Kerber, formaður BDI, samtaka iðnaðarins í Þýskalandi, segir að það yrði „mjög heimskulegt“ af Evrópusambandinu að setja viðskiptahindranir á Breta ef þeir síðarnefndu ákveða að segja skilið við sambandið.

Hann segir að samtökin sem hann er í forsvari fyrir myndu beita sér af alefli gegn slíkum viðskiptahindrunum. Tollar ættu að heyra fortíðinni til.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um framtíð Breta innan Evrópusambandsins fer fram á morgun.

Kerber segir að viðskiptahindranir á milli ríkja eigi ekki að líðast á 21. öldinni. Þær myndu draga úr verðmætasköpun og leiða til aukins atvinnuleysis í bæði Þýskalandi og Bretlandi. Mikilvægt væri að Evrópusambandið og Bretar héldu áfram að eiga viðskipti sín á milli, jafnvel þótt Bretar ákveði að yfirgefa sambandið.

Hann bætti því við að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu gæti sundrað með alvarlegum hætti samstöðu Þjóðverja og Breta, sér í lagi í efnahagslegu tilliti.

Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefur látið hafa eftir sér að yfirgefi Bretar Evrópusambandið þýði það að þeir yfirgefa einnig innri markað sambandsins. Engar undantekningar séu á því. „Út er út,“ segir hann.

Þeir sem berjast fyrir útgöngu Bretlands hafa sagt að landið þurfi ekki að vera hluti af innri markaði sambandsins. 

Jurgen Hardt, þingmaður Kristilega demókrataflokksins í Þýskalandi, segir í frétt breska ríkisútvarpsins að það myndi taka Evrópusambandið langan tíma að ná samkomulagi við Breta um fríverslun, æski Bretar þess. „Ég er handviss um að við finnum leiðir til þess að tengja Bretland aftur við Evrópu, en það verður erfiðara fyrir Breta,“ segir hann.

Hann segir að Evrópusambandið stæði nú í samningaviðræðum við Bandaríkin um fríverslun. Fulltrúar sambandsins myndu hefja sams konar viðræður við Breta, ef þeir segðu skilið við sambandið, en það yrði ekki forgangsmál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert